>> Ökunám

Ökunám til almennra ökuréttinda getur hafist við 16 ára aldur og getur nemandi þá fengið réttindi til æfingaaksturs. Þeir sem ekki hyggjast fara í æfingaakstur byrja oftast ekki fyrr en nokkrum mánuðum fyrir 17 ára aldurinn. Fyrsta skerfið er að velja ökukennara. Hann annast verklega kennslu og leiðir nemann gegnum allt ökunámið og prófin.

Kennsluakstur

Lágmarksfjöldi ökutíma getur aldrei orðið minni en 15 tímar skv. núgildandi reglum og er þá miðað við 45 mín. kennslustund. Nýti nemandi sér heimild til að æfa sig með leiðbeinanda (æfingaakstur) er reglan að teknir séu 10 tímar fyrir æfingaaksturinn og svo 5 tímar rétt fyrir ökuprófið sjálft (lágmarkstímafjöldi).

Ökuskólinn, fyrsti hluti

Fljótlega eftir að verkleg kennsla hefst þarf neminn að sækja fyrsta hluta bóklegs náms í ökuskóla (nefnt Ö1). Verklegri kennslu er haldið áfram samhliða og í beinu framhaldi af náminu í ökuskólanum.

Æfingaakstur

Æfingaakstur með leiðbeinanda getur byrjað þegar neminn er orðinn 16 ára og hefur náð nokkuð góðum tökum á akstri hjá ökukennara (u.þ.b. 10 tímar) og eftir fyrsta hluta náms í ökuskóla. Ökukennarinn vottar að neminn sé tilbúinn til að hefja æfingaakstur. Lögreglustjóri/Sýslumaður gefur þá út leyfi til æfingaaksturs.

Annar hluti ökuskóla og próf

Annar hluti ökuskóla (Ö2) er tekinn þegar nær dregur prófi. Verkleg kennsla heldur áfram samhliða Ö2 og þar til ökukennari telur nema tilbúinn í skriflegt próf. Skriflegt próf má þó ekki fara fram fyrr en að teknir hafa verið að minnsta kosti 14 verklegir ökutímar.

Prófin

Frumherji hf. sér um prófið sem er bæði bóklegt og verklegt. Bóklega prófið má nemandi taka 2 mánuðum áður en 17 ára aldrinum er náð en verklega prófið ekki fyrr en 2 vikum fyrir 17 ára afmælið. Verklega prófið er tekið á kennslubílinn sem nemandinn hefur lært á.

Hvenær er rétt að fara í ökuskóla?

Allir sem vilja öðlast almenn ökuréttindi þurfa að fara í ökuskóla. Bóklega námið skiptist í tvö námskeið, fyrri hluta (Ö1) og seinni hluta (Ö2). Fyrri hlutinn er oftast tekinn fljótlega eftir að ökunemi hefur byrjað nám hjá ökukennara en síðari hlutinn skömmu áður en nemandi ætlar í próf. Áður en æfingaakstur getur hafist þarf nemandi að hafa lokið fyrri hluta ökuskólans. Síðasti hluti ökuskóla (Ö3) fer fram í ökugerði og er sá hluti tekinn í lok námsins eða rétt fyrir verklega prófið.

Hvaða ökuskóla vel ég?

Við hjá EK, kennslu ehf erum í samstarfi við Netökuskólann sem býður uppá að taka ökuskóla 1 og 2 á netinu og hefur það gefið góða raun.

 

Hvað er kennt í ökuskóla?

Á námskeiðum er farið yfir grundvallaratriði er snerta skilning á umferðinni, helstu umferðarreglur, umferðarmerki, umferðarsálfræði, verkefni unnin o.fl. Einnig er aðstoðað við undirbúning ökuprófs.